Langflestir gefa hundunum sínum þurrfóður enda er það ódýrast og handhægast. Það er einna helst að þeir sem eru með smáhunda gefi þeim dósamat eða jafnvel bara mannamat. Ég tel að best sé að gefa hundamat. Þannig á maður að vera nokkuð öruggur með að hundurinn fái öll þau efni sem eru honum nauðsynleg.
En úrvalið er mikið og hver hefur sína skoðun á því hvaða tegund sé best með tilliti til heilsu hundarins, feldsins, hægðanna, tannanna og þess hvernig hundinum líkar fóðrið. Síðasta atriðið getur maður þó haft nokkuð í hendi sér með því að „bragðbæta” matinn. Ég hef orðið bragðbæta í gæaslöppum því hundar hafa mjög takmarkað bragðskyn og éta matinn fremur eftir lykt en bragði.
Ef hundinum líkar ekki matur sem eigandinn hefur góða reynslu af má bæta einhverju sem hundinum finnst lykta vel í matinn. Vegna þess hve lyktnæmir hundar eru þarf bara lítið magn af lyktarefni. Það er hægt að nota flesta matarafganga en hundum þykir t.d. kartöfluskrælingur, fiskroð og hrá egg líka hreinasta lostæti. Flestar sósur henta vel og þá þarf ekki nema eina matskeið eða svo. Sumir sjóða súputeninga eða kjúklingakjötkraft og hella yfir matinn.
Hundar elska líka afskorna fitu og það er trúlega hægt að fá þá til að éta hvað sem er ef maður hellir rjóma út á það. En um leið og við tökum að okkur hund tökum við að okkur ábyrgð á heilsu hans eins og okkur er frekast mögulegt. Þess vagna ættum við aldrei að gefa hundum sætindi eða óþarfa fitu. – Og hundar ættu aldrei að fá súkkulaði. Ég held því ekki fram að örlítið smakk drepi hundinn þinn en súkkulaði virkar eins og eitur á hunda og getur drepið þá.
(Uppfært 22.3.2012, vegna súkkulaðis)