Forsíða

22. nóvember 2020

„Það er engin leið að hætta“ syngur Valgeir með Stuðmönnum í lagi sínu Popplag í G-dúr og vissulega getur verið erfitt að hætta að gera það sem manni þykir skemmtilegt en nú er samt kominn tími á mig.

Ég er hættur að taka hunda í gistingu.

Ég byrjaði á þessu vorið 2010 en þá var ég að passa þrjár tíkur fyrir Elsu frænku og fannst svo gaman að mér datt í hug að nýta mér aðstöðuna hér í Dofra og passa fleiri hunda. Í haust höfðu meira en 150 hundar dvalið hjá okkur Emmu í lengri eða skemmri tíma, sumir margoft. Hér hafa verið hundar af öllum stærðum og gerðum, allir miklir höfðingjar og gleðigjafar.

Sumarið 2010 var eitt besta sumar sem ég man eftir bæði vegna þessara nýju skjólstæðinga minna og fyrir frábært veðurfar en öll hafa sumrin og árin eftir að hundarnir fóru að koma til mín verið meðal minna bestu nema kannske rigningarsumarið 2018.

Og ég var aldeilis ekki einn í þessu heldur naut ég dyggrar aðstoðar hennar Emmu minnar sem var nýorðin eins árs þegar fyrstu hundarnir komu en er nú á svipuðum stað í sínu lífi og ég í mínu. Hún tók af alúð á móti bæði hundum og hundaeigendum og hughreysti þá ef þeir voru óöruggir en róaði ef þeir voru spenntir og kynnti þá fyrir húsakynnum og umhverfi.

Og þó hundar séu aldeilis frábær dýr þá verð ég að segja um hundaeigendur að þeir eru upp til hópa langt yfir meðallagi hvað varðar jákvætt lundarfar og elskulegheit. Það er að minnsta kosti mín reynsla.

Takk fyrir mig allir hundarnir mínir og takk fyrir samskiptin kæru hundaeigendur sem hafið treyst mér fyrir krúttunum ykkar. Megi ykkur ganga allt í haginn.

Sólarlag í Dofra

Sími   821-2969

Netfang: dofragisting@gmail.com