Flestir hundaeigeigendur þurfa einhverntíman á gistingu eða pössun að halda fyrir hundana sína. Á ferðalögum innanlands eru hundar oft, – og reyndar oftast, illa séðir þótt aðeins örli á breytingum hvað þetta varðar í seinni tíð. Reglur um heilbrigði og smitsjúkdóma gera ómögulegt að taka hund með sér til útlanda og heim aftur. Margir leita til fjölskyldunnar eða vina með pössun þegar þeir fara í frí eða þurfa að bregða sér milli bæja af öðrum ástæðum. Ef það gegnur ekki koma hundahótelin til skjalanna.
Dofragisting er ekki venjulegt hundahótel. Ég kalla þetta heimilisgistingu af því að hundarnir gista inni á heimili mínu með mér og hundinum mínum. Þann tíma sem hundarnir eru hjá mér fara þeir út að ganga með mér og mínum hundi, borða með okkur, leika sér með okkur, leggja sig með okkur og sofa með okkur. Þeir fara með okkur í styttri bíltúra (t.d. innkaup) og allt eftir því hvernig viðkomandi hundar eru geta þeir verið einir heima í stuttan tíma annað veifið. Þeir ganga sem sagt inn í daglegt líf á heimili þar sem fyrir er einn hundur (tík).
Ég tek að jafnaði aðeins tvo hunda í gistingu á hverjum tíma þannig að ekki séu meira en þrír hundar hjá mér á hverjum tíma að mínum hundi meðtöldum, og legg áherslu á að allir fái persónulega þjónustu og aðhlynningu eftir þörfum hvers og eins. Hér hafa verið stórir hundar eins og t.d. Irish Setter og litlir hundar eins og t.d. Papillion og Westie og engin vandræði hafa komið upp. Hér hafa verið yfir 20 tegundir hunda og margir blendingar að auki.
Æskilegt er að hundarnir komi með teppi eða bæli sem þeir eru ánægðir með. Einnig er fínt að koma með búr ef þeir eru vanir að vera í búri. Auk þess þarf ég að vita um fóðrunarvenjur, svefnvenjur, taumhald og lausagöngu og fleira sem getur haft áhrif á líðan þeirra hjá mér.
Það er mikilvægt að skipuleggja komu- og brottfarartíma með tilliti til annara heimilisdýra. Mér hefur reynst best að hundarnir komi ekki seinna en svo að við getum farið í gönguferð hér í kring og að þeir séu búnir að kanna húsakynnin áður en við göngum til hvílu.
Ég get því miður ekki tekið tíkur á lóðaríi í gistingu!
Uppfært 26. febrúar 2018.