Gamla forsíðan

Ég tek aðeins hunda sem hafa verið hjá mér áður.

Dofragisting er gististaður fyrir hunda. Sumir kalla þetta hundahótel en það er samt dálítið annað. Dofragisting er hundagisting  inni á „venjulegu“ heimili þar sem fyrir er einn hundur (sjá hér) og aðeins teknir tveir hundar á hverjum tíma. Staðsetningin er í alfaraleið í Reykjavík (sjá hér).

Hundar sem koma í gistingu eiga að vera sprautaðir og ormahreinsaðir.

Ég get ekki tekið lóðatíkur og  ÉG Á EKKI POSA.

Verð fyrir sólarhringsgistingu (næturgistingu) er kr 2500. Innifalið það fæði sem er í boði á staðnum (breytilegar tegundir af góðu þurrfóðri). Um jól og áramót, frá og með 21. desember til og með 6. janúar, kostar gistingin kr. 3500/slhr. 

Enginn veit sitt endadægur

Hingað í Dofra koma margir höfðingar og miklar týpur sem mér þykir vænt um. Flestir þeirra koma aftur og aftur en nú ber svo við að í haust og vetur hef ég misst tvo af fastagestunum mínum. Svona er þetta, aðstæður breytast hjá hundaeigendum eins og öðrum og það sem hentar vel í dag hentar kannske ekki á morgun.

Fyrr í haust flutti eigandi svarta Labrador hundsins Hróa til St. Louis í BNA og ekki kom annað til greina en að Hrói færi með. Hrói er sá hundur sem hefur verið oftast og lengst hjá mér. Hann er af amerískum ættum (BNA og Mexíkó) og honum gekk vel á sýningum. Hann er mikið rólyndisdýr, traustur og öruggur og einn af eftirlætishundunum mínum. Tíkinni minni, henni Emmu, lyndir vel við alla hunda en þau Hrói voru vinir ef hægt ar að tala þannig um hunda.

Í morgun kvaddi ég svo sómahundinn Rocky, sérlega glæsilegan Vizslu hund sem líka var einn af eftirlætis gestunum hér í Dofra. Rocky var bæði ljúfur og blíður og sérlega fallegur hundur. Því miður breyttust heimilisaðstæður hjá eigendum hans þannig að þau gátu ekki haft hann lengur. Eftir langa en árangurslausa leit að nýjum eiganda var ekki um annað að ræða en að svæfa hann blessaðann. Það er mjög sárt fyrir þá sem eftir eru en hundarnir sjálfir finna sem betur fer ekki fyrir þessu ferðalagi.

Bannaður aðgangur fyrir hunda

Það er algjör óþarfi að veita hundum aðgang að hverju einasta herbergi heimilisins. Ég vil t.d. ekki hafa hunda í eldhúsinu hjá mér en þeir mega vera annarsstaðar í húsinu ef dyr eru opnar. Sumir vilja ekki hafa hunda í svefnherberginu eða svefnherbergjunum og aðrir vilja ekki hafa þá í baðherberginu. Athugið þó að ef ætlunin er að baða hundinn í baðherberginu er ekki rétt að banna honum aðgang þess á milli.

Mér hefur reynst mjög auðvelt að kenna mínum hundum að fara ekki í eldhúsið og hundar sem eru í heimsókn læra  það á parti úr degi. Ég nota einfaldlega bannorð og færi þá út fyrir þröskuldinn ef ég kem að þeim í eldhúsinu eða ef þeir koma inn í eldhúsið þegar ég er þar. Ég læt þá sitja við þröskuldinn og hrósa þeim þar, – svo fremi þeir séu rólegir og auðmjúkir (calm and submissive). Það á aldrei að hrósa æstum hundi sem e.t.v. er með meiningar um neikvæða hegðum.

Á mínu heimili hagar svo til að eldhúsið er í sér herbergi með dyrum (án hurðar) og þröskuldi og fyrir bragðið er þetta mjög einfalt. Aðrir hafa sagt mér að þetta sé heldur ekkert vandamál þar sem eldhúsið er meira og minna opið. Sumir hafa dregið línu af einhverju tagi á gólfið en aðrir hafa bara miðað við huglæga línu og gengið ágætlega.