Gamla forsíðan

Ég tek aðeins hunda sem hafa verið hjá mér áður.

Dofragisting er gististaður fyrir hunda. Sumir kalla þetta hundahótel en það er samt dálítið annað. Dofragisting er hundagisting  inni á „venjulegu“ heimili þar sem fyrir er einn hundur (sjá hér) og aðeins teknir tveir hundar á hverjum tíma. Staðsetningin er í alfaraleið í Reykjavík (sjá hér).

Hundar sem koma í gistingu eiga að vera sprautaðir og ormahreinsaðir.

Ég get ekki tekið lóðatíkur og  ÉG Á EKKI POSA.

Verð fyrir sólarhringsgistingu (næturgistingu) er kr 2500. Innifalið það fæði sem er í boði á staðnum (breytilegar tegundir af góðu þurrfóðri). Um jól og áramót, frá og með 21. desember til og með 6. janúar, kostar gistingin kr. 3500/slhr. 

Enginn veit sitt endadægur

Hingað í Dofra koma margir höfðingar og miklar týpur sem mér þykir vænt um. Flestir þeirra koma aftur og aftur en nú ber svo við að í haust og vetur hef ég misst tvo af fastagestunum mínum. Svona er þetta, aðstæður breytast hjá hundaeigendum eins og öðrum og það sem hentar vel í dag hentar kannske ekki á morgun.

Fyrr í haust flutti eigandi svarta Labrador hundsins Hróa til St. Louis í BNA og ekki kom annað til greina en að Hrói færi með. Hrói er sá hundur sem hefur verið oftast og lengst hjá mér. Hann er af amerískum ættum (BNA og Mexíkó) og honum gekk vel á sýningum. Hann er mikið rólyndisdýr, traustur og öruggur og einn af eftirlætishundunum mínum. Tíkinni minni, henni Emmu, lyndir vel við alla hunda en þau Hrói voru vinir ef hægt ar að tala þannig um hunda.

Í morgun kvaddi ég svo sómahundinn Rocky, sérlega glæsilegan Vizslu hund sem líka var einn af eftirlætis gestunum hér í Dofra. Rocky var bæði ljúfur og blíður og sérlega fallegur hundur. Því miður breyttust heimilisaðstæður hjá eigendum hans þannig að þau gátu ekki haft hann lengur. Eftir langa en árangurslausa leit að nýjum eiganda var ekki um annað að ræða en að svæfa hann blessaðann. Það er mjög sárt fyrir þá sem eftir eru en hundarnir sjálfir finna sem betur fer ekki fyrir þessu ferðalagi.

Bannaður aðgangur fyrir hunda

Það er algjör óþarfi að veita hundum aðgang að hverju einasta herbergi heimilisins. Ég vil t.d. ekki hafa hunda í eldhúsinu hjá mér en þeir mega vera annarsstaðar í húsinu ef dyr eru opnar. Sumir vilja ekki hafa hunda í svefnherberginu eða svefnherbergjunum og aðrir vilja ekki hafa þá í baðherberginu. Athugið þó að ef ætlunin er að baða hundinn í baðherberginu er ekki rétt að banna honum aðgang þess á milli.

Mér hefur reynst mjög auðvelt að kenna mínum hundum að fara ekki í eldhúsið og hundar sem eru í heimsókn læra  það á parti úr degi. Ég nota einfaldlega bannorð og færi þá út fyrir þröskuldinn ef ég kem að þeim í eldhúsinu eða ef þeir koma inn í eldhúsið þegar ég er þar. Ég læt þá sitja við þröskuldinn og hrósa þeim þar, – svo fremi þeir séu rólegir og auðmjúkir (calm and submissive). Það á aldrei að hrósa æstum hundi sem e.t.v. er með meiningar um neikvæða hegðum.

Á mínu heimili hagar svo til að eldhúsið er í sér herbergi með dyrum (án hurðar) og þröskuldi og fyrir bragðið er þetta mjög einfalt. Aðrir hafa sagt mér að þetta sé heldur ekkert vandamál þar sem eldhúsið er meira og minna opið. Sumir hafa dregið línu af einhverju tagi á gólfið en aðrir hafa bara miðað við huglæga línu og gengið ágætlega.

Goggunarröðin

Hundar hafa varið okkur, veitt fyrir okkur,  borið byrðar og dregið hlöss fyrir okkur og veitt okkur hlýju, ánægju og tryggð í amk 30 – 40 þúsund ár. Allt sem við þurfum að gera fyrir þá í staðinn er að gefa þeim afgangana af borðum okkar segja þeim hvar þeir standa í goggunarröð heimilisins.

Cesar Millan heitir maður. Hann kallar sig „dogwhisperer” sem er hliðstæða við orðið „horsewhisperer” en það er notað um sérstaka tækni við að endurhæfa hross sem hafa orðið illviðráðanleg vegna slæms aðbúnaðar eða áfalla. Endurhæfingin byggist á því að nota eðlilegt samskipta- og tjáningaratferli hrossanna sjálfra („hrossasálfræði”) til að leiðrétta t.d. hræðslu- og/eða  árásarviðbrögð. Cesar er heimsfrægur fyrir sjónvarpsþætti sína, myndbönd og bækur.

Á Youtube má finna aragrúa af myndskeiðum þar sem aðferðum hans er lýst að nokkru. Gallinn við mörg þessara myndskeiða er að þau eru of stutt. Reynið frekar að finna myndskeið sem eru nálægt 10 mínútum en hin sem eru 2-4 mínútur eða þaðan af styttri. Best er þó að panta myndbönd af heimasíðu Cesars eða frá Amazon (Amazon US, Amazon UK). Cesar er algjör snillingur og hefur fjallað um margt sem hrjáir hundaeigendur. Þó við náum seint færni hans í að umgangast og endurhæfa hunda þá má læra margt, mjög margt, af honum sem kemur sér vel í hinu daglaga striti.

Eitt af því sem Cesar bendir á er að oft gefum við hundunum okkar röng skilaboð varðandi stöðu þeirra á heimilinu. Regla nr. eitt er:

Hundar eiga alltaf að vera lægra settir en allt fólkið á heimilinu.

Annað sem hann endurtekur aftur og aftur er að það á aldrei að klappa, hrósa eða gæla við hund sem ekki er í jafnvægi. Ef hundurinn er uppstökkur og óhlýðinn á hvorki að snerta hann, tala við hann eða horfa á hann (no touch, no talk and no eyecontact). Til þess að fá hrós á hundurinn að vera afslappaður og undirgefinn (calm and submissive). Þetta getur þýtt að maður verður að fylgjast með því hvenær hundurinn er rólegur, standa þá upp, ganga til hans og gæla við hann.

Cesar segir að hundar lesi ástand húsbónda sinn eins og opna bók og þetta er líka mín reynsla. Húsbóndinn á alltaf að vera rólegur en ákveðinn (calm and assertive) þegar hann leiðbeinir hundinum sínum. Hundum er nauðsynlegt að finna á skýran og ákveðinn hátt hver staða þeirra á heimilinu er.  Þeim er alveg sama hvar þeir standa bara á þeir séu öruggir með þá stöðu sem þeir hafa. Ef þeir eru í vafa munu þeir leitast við að skapa sér stöðu eins ofarlega í goggunarröðinni og þeir geta og það getur leitt til vandræða.

Fylgist því vel með því hvort hundurinn reynir að stjórna ykkur eða hvort hann tekur leiðbeiningum og á afslappaðann og spennulausan hátt.

Hér er ágæt grein af heimasíðu Cesars Millan.

Who’s in Charge? You Are!

SUMIR HUNDAATFERLISFRÆÐINGAR GAGNRÝNA AÐFERÐIR CESARS EN ÞAÐ SEM SAGT ER Í ÞESSUM STUTTA PISTLI HEFUR STAÐIST TÍMAN TÖNN.

Hvolpanámsskeið

Ég ráðlegg öllum sem fá sér hvolp að fara á hvolpanámsskeið. Sumum finnst eflaust að þeir séu full færir um að ala upp hvolp og kannske eru þeir það. En námsskeið gefa manni svo margt umfram heimauppeldi:

  • Fyrir það fyrsta eru námsskeiðin ekki síður fyrir eigendurna en hvolpana. Réttar aðferðir og réttur skilningur í upphafi getur bæði sparað manni áhyggjur og erfiði og veitt manni aukna ánægju allan tíman sem maður á hundinn. Og fyrir þá sem hafa farið á námsskeið áður rifjast ýmislegt upp sem smá saman hefur gleymst eða orðið út undan.
  • Í öðru lagi er hvolpurinn (og eigandinn) innan um ókunnugt fólk og aðra hunda á námsskeiðinu og lærir að umgangast þá. Ef einhver vandamál koma upp þá fær maður hjálp við að leysa þau. Þetta er bara eins og í skóla almennt. Manni er kennt eitthvað, maður fer heim og æfir sig og kemur svo í næsta tíma annaðhvort ánægður með sjálfan sig og hvolpinn eða með óskir um nánari leiðbeiningar.
  • Maður fær auðvitað afslátt af hundaleyfisgjaldinu sem er ekki ónýtt og ….
  • …. síðast en ekki síst þá er svo gaman á námskeiðum. Það er bara fátt skemmtilegra en að vera með hundinum sínum á námsskeiði. Auk ánægjunnar styrkir það sambandið milli eiganda og hunds og gerir öll samskipti þeirra í milli betri og auðveldari.

Ég hef farið á hvolpanámsskeið með mína hunda og auk þess á hlýðninámsskeið, framhaldshlýðninámsskeið, sporarakningarnámsskeið, smalahundanámsskeið o.fl. og haft af því ómælda ánægju.

Hundar éta með nefinu

FLOTTUR

Langflestir gefa hundunum sínum þurrfóður enda er það ódýrast og handhægast. Það er einna helst að þeir sem eru með smáhunda gefi þeim dósamat eða jafnvel bara mannamat. Ég tel að best sé að gefa hundamat. Þannig á maður að vera nokkuð öruggur með að hundurinn fái öll þau efni sem eru honum nauðsynleg.

En úrvalið er mikið og hver hefur sína skoðun á því hvaða tegund sé best með tilliti til heilsu hundarins, feldsins, hægðanna, tannanna og þess hvernig hundinum líkar fóðrið. Síðasta atriðið getur maður þó haft nokkuð í hendi sér með því að „bragðbæta” matinn. Ég hef orðið bragðbæta í gæaslöppum því hundar hafa mjög takmarkað bragðskyn og éta matinn fremur eftir lykt en bragði.

Ef hundinum líkar ekki matur sem eigandinn hefur góða reynslu af  má bæta einhverju sem hundinum finnst lykta vel í matinn. Vegna þess hve lyktnæmir hundar eru  þarf bara lítið magn af lyktarefni. Það er hægt að nota flesta matarafganga en hundum þykir t.d. kartöfluskrælingur, fiskroð og hrá egg líka hreinasta lostæti. Flestar sósur henta vel og þá þarf ekki nema eina matskeið eða svo. Sumir sjóða súputeninga eða kjúklingakjötkraft og hella yfir matinn.

Hundar elska líka afskorna fitu og það er trúlega hægt að fá þá til að éta hvað sem er ef maður hellir rjóma út á það. En um leið og við tökum að okkur hund tökum við að okkur ábyrgð á heilsu hans eins og okkur er frekast mögulegt.  Þess vagna ættum við aldrei að gefa hundum sætindi eða óþarfa fitu. – Og hundar ættu aldrei að fá súkkulaði. Ég held því ekki fram að örlítið smakk drepi hundinn þinn en súkkulaði virkar eins og eitur á hunda og getur drepið þá.

(Uppfært 22.3.2012, vegna súkkulaðis)

Dag nokkurn í Húsasmiðjunni


Það var útsala í Húsasmiðjunni og bíll í nánast hverju stæði.

Ég varð því að leggja bílnum fjær dyrunum en ég hefði kosið.

Síðan opnaði ég góða rifu á bílrúðurnar því Golden Retriever hvolpurinn sem ég var nýbúinn að eignast, þurfti auðvitað ferskt loft. Greyið hafði teygt úr sér í aftursætinu og ég ætlaði að koma honum í skilning um að þar ætti hann að vera kyrr.

Til að byrja með, gekk ég afturábak eftir stéttinni og kallaði til hans með skipandi röddu: „Kyrr ! – Heyrirðu það.     „Kyrr-Kyrr“

Unga ljóskan sem sat undir stýri í nálægum bíl, horfði einkennilega á mig og sagði svo:

„Settann bara í „PARK“? !!!!!

Er hundurinn órólegur?

Þessi virðist ekki ver órólegur

Sumir hundar geta verið órólegir þegar þeir eru skildir eftir heima. Aðrir eru órólegir og sígeltandi jafnvel þótt fjölskyldan sé heima. Mörgum hefur reynst vel að setja hudana í búr. Það getur veitt þeim aukið öryggi. Margir loka þá inni í tiltölulega litlum herbergjum þegar þeir fara frá eða þegar hundarnir eru órólegir. Sama er oft gert við hunda yfir nóttina og hefur reynst vel. Það þarf að vera góð loftun í svona herbergjum og þarna má ekki vera neitt sem hundarnir geta skemmt og nóg af hreinu vatni. Að sjálfsögðu er rétt að fara með hundana á klóið áður en þeir eri skildir eftir. Það á alltaf við.

Ef hundarnir krafsa í hurðina þegar þeir eru lokaðir inni er hægt að berja fast í hurðina utan frá þannig að það bylji vel í. Þetta þarf að tímasetja þannig að höggið komi á meðan hundurinn krafsar, helst um leið og hann byrjar að krafsa. Ég hef reynt þetta og það svínvirkar.

Hundar eru alls ekki háðir því að vera innan um fjölkskyldu sína allan sólarhringinn. Allir vinnuhundar og allir sveitahundar eru vanir að vera í útihúsum, kjallörum eða forstofum. Þeir koma yfirleitt aldrei inn í vistarverur eiganda sinna og húsbænda. Hitt er svo annað mál að sumir eigendur eru háðir því að hafa hundinn við hliðina á sér allan sólarhringinn.